
Hér eru okkar bestu ráð um rækilega jólahreingerningu:
Blettir á húsgögnum eða veggjum
Eru þrálátir blettir í vaskinum? Á eldhúsbekknum? Strik á veggjum eftir litaglaða krakka?
Töfrasvampurinn getur gert algjört kraftaverk á þrálátum blettum sem þessum, sem ekkert annað virðist virka á. Bleytið svampinn lítillega, nuddið blettina, og þurrkið svo yfir með þurri tusku, og blettirnir ættu að hverfa.
Allt ryk á bak og burt
Það er best að þurrka vel af og ryksuga á sama tíma. Ef ryksugan fer bara yfir gólfið er enn nóg af ryki á hillum og myndarömmum, sem hrynur svo niður þegar þurrkað er af. Það er best að ráðast í verkið vopnaður sápuvatni og ryksugu, þurrka af, ryksuga síðan, og ekki bara gólfið heldur aðra staði þar sem ryk leynist, eins og sófann, rúmdýnurnar, púðana, og síðast en ekki síst er mikilvægt að ryksuga gólfteppin vel.
Þá er ekki úr vegi að renna yfir bæði glugga og spegla í leiðinni svo sterk vetrarsólin setji ekki kastljós á rykkorn þar, og láti tandurhreint húsið virðast rykugt.
Og fyrst að tuskan er á annað borð komin á loft, er um að gera að strjúka innan úr skápum og skúffum í leiðinni.

Ekki gleyma að þrífa tækin sem þrífa
Uppþvottavélin á það til að gleymast í allsherjarhreingerningum, líklega af því að hún er til þess gerð að þrífa. Hún þarf þó smá ást með reglulegu millibili, en sú þarf ekki að vera flókin.
Þrír desilítrar af bragðlausu ediki eru settir í botninn á vélinni og hún sett í gang á þá stillingu sem býður upp á hæsta mögulega hita. Edikið leysir upp kalk, fitu og drepur þær bakteríur sem kunna að leynast í vélinni. Þegar vélin er búin er hún aftur sett tóm í gang, en nú á almennri stillingu með lægri hita.
Eftir þetta ætti uppþvottavélina að vera bæði tandurhrein og tilbúin í jólauppvaskið!
Átökin við eldhúsviftuna
Eldhúsviftan er eitt af þessum tækjum sem þarf að þrífa vel með reglulegu millibili því hún safnar á sig og í, miklu magni af fitu úr eldamennskunni.
Einfaldasta leiðin til að þrífa hana er að nota uppþvottavélina. Margar viftur eru útbúnar síum sem þola ferð í uppþvottavélina, sem gera þrifin einstaklega þægileg. Við mælum með því að þvo ekkert annað með þeim, því fitan er þrálát og getur fests á öðru sem fer með í vélina.
Önnur lausn til að þrífa eldhúsviftuna er að finna í eldhússkápnum. Blanda af edik og matarsóda er sérstaklega góð til að losna við fitu eins og þá sem sest utan á eldhúsviftur og í síunum. Vatn er soðið í potti, og við er bætt hvítu ediki og matskeið af matarsóda. Síurnar úr eldhúsviftunni eru settar í djúpa ofnskúffu og blöndunni hellt yfir. Síurnar eru látnar liggja í nokkrar mínútur og síðan skolaðar með hreinu vatni. Ef einhverjir þrálátir blettir liggja eftir er gott að nota lítinn bursta á borð við tannbursta til að ná þeim burt.
Það er ekki síður mikilvægt að þrífa viftuna að utan. Þar má nota raka tusku og gott hreinsiefni, eða hluta af edikblöndunni sem síurnar voru lagðar í. Þetta er verk sem borgar sig að gera með reglulega yfir árið, það sparar talsverða orku í skrúbb um jólin.
Lestu einnig: Svona þrífur þú eldhúsviftuna
Leynast óhreinindi í ísskápnum?
Ísskápurinn þarf ekki minna á hreingerningu að halda en restin af eldhúsinu, enda er hann líklega ekki þrifinn á hverjum degi. Þar geta þó setið eftir ýmis óhreinindi, raki í grænmetisskúffunni, sultuhringur sem óhrein krukka hefur skilið eftir sig, kókómjólkurklessa eftir leka fernu, og svo framvegis. Harða plastið í ísskápnum gerir það að verkum að hann er auðvelt að þrífa, en við mælum sérstaklega með því að nota sítrónusafa í bland við volgt vatn og 2-3 msk af lyftidufti til verksins. Það er bæði umhverfisvænt, og gefur mjög góðan og ferskan ilm.
Best að baka í hreinum ofni
Bakaraofninn er miserfiður viðureignar. Skítugur ofn kallar á ekkert minna en ofnhreinsi til að leysa upp fitu og margbrunna bletti. Flestar gerðir þurfa að liggja í ofninum í ákveðinn tíma, eftir leiðbeiningum á umbúðunum, og svo er þurrkað innan úr ofninum með blautri tusku. Ef ofninn er tiltölulega hreinn til að byrja með geta venjuleg hreinsiefni, eða fyrrnefnd blanda af sítrónu og lyftidufti, vel dugað til að ná því litla sem er.
Hrein sturta, betri sturta
Niðurfallið í sturtunni getur auðveldlega stíflast, því er best að hreinsa það oftar en bara í jólahreingerningunni, eða þrisvar til fjórum sinnum yfir árið.
Það er gott að setja á sig hanska áður en hafist er handa, því þetta er ekki geðslegasta húsverkið.
Grindin yfir niðurfallinu er losuð, stundum er auðvelt að smella henni upp, en stundum þarf prik til að þvinga grindina lausa. Það ætti þó ekki að þurfa mikið átak. Þegar grindin er laus er hægt að hreinsa upp hár og fitu sem hefur safnast upp undir henni, og líklega hægt á vatnsrennslinu. Í mörgum niðurföllum er gildra fyrir óhreinindi sem hægt er að taka upp, þar leynist enn meira af hárum og fitu sem þarf að hreinsa vel, og helst skola með sjóðandi vatnið áður en hún er sett aftur á sinn stað.
Lestu einnig: Fimm einföld skref að hreinu niðurfalli