Sjálfbær innrétting
Sjálfbærni

Ráð arkitektsins um hvernig er hægt að innrétta heima á umhverfisvænni hátt

Eitt af því sem hægt er að gera til að vera umhverfisvænni er að gæta að neyslunni. Birgir Örn Jónsson arkitekt gefur hér nokkur góð ráð um hvernig megi gæta að umhverfismálum þegar kemur að innréttingu heimilisins

Fólk er gjarnt á að hlaupa til og kaupa umhverfisvænar lausnir, en það þýðir oft að það fer eitthvað annað á haugana. Út frá því sjónarmiði ráðlegg ég fólki oft að hugsa skapandi varðandi hluti sem það getur sjálft endurunnið.“

segir Birgir Örn Jónsson er arkitekt, fagurkeri og áhugamaður um sjálfbærni.

Birgir útskrifaðist frá Bartlet School of Architecture í London árið 2012, síðan þá hefur hann starfað í London, Kaupmannahöfn og nú síðast hér heima. Starfssvið Birgis er fjölbreytt, auk þess að starfa sem arkitekt hefur hann komið að sýningum, teiknað innréttingar og fleira.

 

barnaherbergi
Mynd: Heimstaden

Ánægja fólgin í því að gera upp húsgögn

Ég er hrifinn af því að hlutum sé haldið við, þeir gerðir upp og þess háttar. Það er ákveðin ánægja fólgin í því að læra að gera við hluti í kringum sig, hvort sem það er að pússa upp húsgögn eða herða lamir. Það hefur marga kosti að pæla aðeins í þessum hlutum sem maður á.

Birgir segir að smærri viðgerðir séu öllum færar, grunnþekking þurfi ekki endilega að vera til staðar því það séu til nóg af leiðbeiningum á internetinu, t.d. á YouTube.

Ég hef hitt fólk sem vill henda innréttingum af því að það er ekki hrifið af frontinum á þeim. En það má oft gefa hlutum nýtt líf bara með því að gera þá upp eða laga. Fólk á það til að skoða íbúð og dæma innréttinguna út frá því að hringli í skápum þegar það þarf kannski bara að herða lamir,“ segir Birgir sem er sjálfur að lífga upp á heimilið sitt um þessar mundir með því að mála eldhúsinnréttinguna.

 

svefnherbergi
Mynd: Heimstaden

 

Vill frekar eiga ekkert en bara eitthvað

Ég kaupi helst ekki neitt nema ég finni eitthvað sem ég vil eiga til langs tíma. Ég vil frekar ekki eiga sófaborð en að eiga bara eitthvað. En stundum þarf að redda sér. Þá er mjög mikilvægt að velja hluti úr náttúrulegum efnum. Vörur úr spónaplötum með plasti yfir enda líklega í landfyllingu því það er ekki hægt að endurvinna þær [því þá er búið að skeyta saman ólíkum efnum]. Mörg húsgagnafyrirtæki eru með vörur úr t.d. ómeðhöndlaðri furu, sem mér finnst alltaf, aðlaðandi kostur ef maður hefur ekki efni á að kaupa eitthvað fínt. Það er þá hægt að taka þær í sundur og endurnýta þær.“ segir Birgir að lokum.