matarsóun

Fimm ráð til að minnka matarsóun

Á hverjum degi ratar ógrynni af mat í ruslafötur um heim allan og þar er Ísland engin undantekning. Rannsóknir sýna að hver Íslendingur sóar um 90 kg af mat árlega, það er ekki bara vandamál umhverfisins vegna, heldur pyngjunnar líka - búðarferð sem skilar af sér 90 kílóum af matvælum kostar skildinginn!

Það góða í stöðunni er að rannsóknir sýna líka að flestir Íslendingar eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að lágmarka matarsóun. En hvernig er hægt að minnka matarsóun?

sustainability hero narrow

Hvernig get ég minnkað matarsóun?

Til þess eru ýmsar leiðir, hér eru okkar ráð:

1. Skipulögð innkaup

Að skipuleggja máltíðir vikunnar og fara í eina stóra verslunarferð til að kaupa það sem til þarf er frábær leið til að minnka matarsóun. Það stórminnkar líkurnar á því að sitja uppi með of mikinn mat sem skemmist, og býr til færri tækifæri til að falla fyrir tilboðum á mat, sem er bara á of góðu verði, en ekki gefst tími til að elda áður en hann rennur út.

Og eins og við öll vitum þá er það ávísun á smekkfulla innkaupakerru af alls konar óþarfa að fara svöng/svangur í búðina, svo það er nokkuð sem er best að forðast!

2.    Skammtur eða skammtar?

Skammtastærðir geta reynst erfiðar að áætla, sérstaklega fyrir þá sem búa einir. Móðir náttúra, í samstarfi við grænmetisbændur, er ekki alveg á þeim nótunum að rækta mikið af brokkolíi sem hentar í máltíð fyrir einn.
Lausnin er einföld, skipuleggja næstu máltíðir út frá grænmetinu, eða elda einn stóran skammt og eiga í nesti næsta dag og jafnvel í kvöldmat síðar í vikunni á degi þegar enginn nennir að elda!

3. Smakka!

Síðasti söludagur er bara viðmið, fjöldinn allur af matvælum er í fínasta lagi þrátt fyrir að vera kominn fram yfir síðasta söludag. Hér er best að láta nefið ráða. Lyktin gefur góða vísbendingu um það hvort maturinn er skemmdur, en til að vera viss er best að smakka á honum, bragðið ætti ekki að fara á milli mála.

matarsóun afganar

4. Afgangakvöld

Hver kannast ekki við að elda pasta fyrir heila herdeild þó það séu bara þrír í mat?

Það er hér um bil óhjákvæmilegt að sitja uppi með afganga eftir máltíðir, svo það er um að gera að ein máltíð í viku sé helguð því að borða þá upp. Margur matur verður jafnvel betri þegar hann er hitaður upp, til dæmis kjötsúpa. Aðra rétti er hægt að endurvinna, eins og að gera arancini bollur úr risotto, eða skera afgang af lambalæri niður í strimla og nota í vefjur. Með smá skvettu af soyasósu eða salsasósu er svo hægt að gera máltíðina enn meira spennandi með því að senda hana yfir í annan heimshluta!

Það má jafnvel nýta afgangana enn einu sinni, og taka restina með í nesti daginn eftir!

5. Gefðu matinn!

Það getur verið flókið mál að klára hverja örðu af mat úr ísskápnum sem annars myndi skemmast áður en haldið er af stað í ferðalag. Svo það er um að gera að gefa hann! Hvort sem það er til vina, ættingja, eða einfaldlega nágrannans – fæstir slá hendinni á móti ostinum eða banönunum sem annars hefðu farið í ruslið!

 

Viltu vita meira um Heimstaden og okkar skuldbindingu til samfélagsins?