Svona færðu meiri orku yfir vetrartímann!

Á haustin og veturna finnum við mörg fyrir þreytu og orkuleysi. Það er mikið til komið vegna skorts á sólarljósi og dagsbirtu. Það eru hlutir sem við getum gert sjálf til að hafa áhrif á líðan okkar yfir dimmustu mánuði ársins. Hér eru nokkrir hlutir sem við mælum með að gera til að fá aukna orku.

Nýttu dagsbirtuna

Reyndu að vera eins mikið úti í dagsbirtunni og hægt er. Sestu nálægt glugganum í vinnunni, skólanum eða heima fyrir. Gott er að fara í stuttan göngutúr yfir daginn til að fá aukna orku. Fundir og símtöl sem þú þarft mögulega að sinna er gott að taka í göngutúrnum.

Hafðu eitthvað til að hlakka til

Skipuleggðu eitthvað skemmtilegt! Það að hafa eitthvað til að hlakka til getur lýst upp skammdegið. Allt frá því að skipuleggja spilakvöld með fjölskyldu, stefnumót við vini, bíóferðir eða tónleika.

Svefn

Forgangsraðaðu svefninum þínum! Líkaminn þarf um 7-8 klukkustunda svefn á sólarhring til að takast á við verkefni dagsins. Ef okkur tekst að hvíla okkur vel þá verðum við meira vakandi og með betri einbeitingu.

Fjölbreytt og reglubundið mataræði

Mikilvægt er að huga vel að góðri næringu. Gott er að borða reglulega yfir daginn til að viðhalda blóðsykrinum, ef blóðsykurinn er í jafnvægi verðum við síður þreyttari.

Hreyfðu þig

Þó það sé dimmt þegar við komum heim úr vinnu eða skóla þá mun okkur líða betur eftir smá hreyfingu. Reyndu að finna hvatann til þess að stunda líkamlega hreyfingu yfir daginn. Ferð í ræktina, sund eða góður göngutúr getur gert heilan helling. Ekki gleyma endurskinsmerkinu áður en þú ferð út í myrkrið.

Vítamín

Yfir vetrartímann er sérstaklega mikilvægt að líkaminn fái öll nauðsynlegustu vítamínin. Við fáum fullt af vítamínum úr góðri fæðu, fiski, grænmeti, ávöxtum og korni. Einnig er frábært að búa sér til góðan hristing með ávöxtum og grænmeti.