Sjö leiðir til að endurnýta jólatréð

Þegar jólin eru búin er eitt og annað sem tekur við, eins og að venjast því hætta því að lauma upp í sig konfektmola við hvert tækifæri, og að ganga frá öllum því sem jólunum fylgir.

Hvað á að gera við jólatréð?

Það er ólíkt eftir sveitafélögum hvernig lausnir er boðið upp á til að farga jólatrjám. Á höfuðborgarsvæðinu taka björgunarsveitir og íþróttafélög oft að sér að losa fólk við jólatré gegn vægu gjaldi.

Það er hinsvegar fleira í stöðunni en að henda trjánum, þau má endurvinna á ótrúlegustu vegu!

Hér eru nokkrar tillögur að leiðum til að endurnýta jólatréð

1. Öðruvísi kokteilar

Greninálasíróp er dásamleg viðbót í kokteila, hvort sem þeir eru áfengir eða ekki. Það er t.d. einfalt að herma eftir greninálamojito, sem gerði garðinn frægan á Kolabrautinni í Hörpu fyrir einhverjum árum síðan. Bolli af greininálum er settur í pott með bolla af sykri og bolla af vatni, hitað að suðu, slökkt undir og látið standa í klukkutíma. Greninálarnar eru síaðar frá og sírópið er notað í stað sykurs í mojito, hvort sem hann er áfengur eða ekki!
Sírópið er ekki síður gott út í sódavatn, eða út á ís og jarðarber.

2. Grenite

Bragðið af greninálatei flytur mann beinustu leið út í skóg. Taka má nálar af jólatrénu, um 1 msk, setja í bolla og hella sjóðandi vatni yfir og láta standa í um 3 mínútur, svo eru nálarnar síaðar frá og smá hunangi jafnvel bætt við. Útkoman bragðast eins og jólatré!

 

3. Glæsileg blómabeð

Grenitré eru ekki síður falleg í bútum en heil. Saga má bolinn niður í skífur og stinga skífunum niður meðfram blómabeði til að fegra garðinn.

4. Náttúran á veisluborðinu

Skífurnar má líka pússa og lakka (mikilvægt skref svo trjákvoðan leki ekki út og festist við borð og glös), og nota sem glasamottur.

5. Að halda í jólailminn

Greniilmur í stofunni er að margra mati ómissandi hluti af jólunum, en það má vel halda í hann þegar jólatréð er farið. Minni greinar eru sagaðar niður í litla bita og settar með greninu í taupoka, um 1 bolli í hvern poka. Það má bæði hafa þá í stofunni til að viðhalda jólailmnum, eða inn í skáp til að koma í veg fyrir geymslulykt

6. Flikkað upp á flíkur

Fyrst að sandpappírinn og sögin eru þegar komin fram, er um að gera að saga skífur úr litlu greinunum líka. Þær eru lakkaðar, pússaðar, og tvö lítil göt boruð í gegn. Úr verða glæsilegar tölur sem prýða hvaða peysu sem er!

7. Vetrarskraut

Hver segir að kransar séu bara fyrir jólin? Fallegur, einfaldur grenikrans úr greinum jólatrésins er glæsileg vetrarskreyting!

jólatré